Jón Rögnvaldsson garð- og skógræktarfræðingur tók við umsjón Listigarðsins á Akureyri 1953. Undir handarjaðri Jóns tók Lystigarðurinn fljótt nokkrum breytingum. Var hann á næstu árum stækkaður tvívegis, til suðurs og vesturs. Þá lagði hann áherslu á að hæfilegt hlutfall yrði milli grasflata, blómabeða og runna annars vegar og trjágróðurs hins vegar. Kom þetta í veg fyrir að of þéttur og mikill trjágróður spillti svip garðsins.

 

Stórfelld stækkun Lystigarðsins

– verkefni fyrir æskuna. Lystigarðurinn er hin mesta bæjarprýði. Þarf ekki að lýsa því fyrir bæjarmönnum. Oft hefur verið talað um að stækka hann en lítið orðið úr framkvæmdum.Gert er ráð fyrir að stækka hann til vesturs og er það gott svo langt sem það nær. En meira þarf til svo að Lystigarðurinn og umhverfi hans megi verða stórum glæsilegri og stærri en nú er hann. Ef dreginn er ferhyrningur frá Þórunnarstræti suður fyrir gamla spítala, þaðan norður að Samkomuhúsi og þaðan vestur í Lystigarðshornið, má sjá, að innan þessara lína eru miklir möguleikar til þess að skapa eitt stórt Lystigarðssvæði. Þetta verk kostar fyrst og fremst starf og áhuga en ekki miklar fjárfúlgur ef áhugi borgaranna er almennur. Og það kostar ekki nema lítið í gjaldeyri, og þó þá fyrst, er að því kæmi að prýða þennan stóra garð með gosbrunnum, líkneskjum og öðru slíku.

(Dagur 21/1 1950)

 

Þess er vert að geta að við hlið Jóns starfaði lengst af Kristján bróðir hans og var honum jafnan sem önnur hægri hönd.Innlendu jurtirnar í safnið sóttu þeir bræður út um allt land. Takmarkið var að fá eintak af öllum íslenskum plöntum frá innlendum vaxtarstöðum og spöruðu þeir hvorki til þess tíma né erfiði. Þeir sem lagt hafa stund á jurtasöfnun hafa kynnst því hversu erfitt og mikið þolinmæðisverk það getur verið að finna sjaldgæfar plöntur enda þótt vitað sé nokkurn veginn um vaxtarstað þeirra. Oftast munu þeir bræður þó hafa snúið heim með mikinn feng og reynslunni ríkari og fáir tókum þeim fram í þeirri list að finna fátíðar tegundir.

Í ræktun íslenskra jurta var Jón brautryðjandi. Í fyrstu ræktaði hann þær í steinhæð og þykir furðu gegna hverju margar tegundir má rækta í því umhverfi. Síðar kom hann upp skilyrðum fyrir votlendis og vatnajurtir sem bætti safnið mikið. Hann fékk grasafræðinga í lið með sér til söfnunar og til að viðhalda réttri merkingu plantnanna og niðurröðun. Ekki má gleyma því að á sama tíma fjölgarði erlendum tegundum safnsins í sífellu. Gerði Jón stöðugt tilraunir með ræktun fjölmargra þeirra og valdi til framhaldsræktunar þær tegundir sem vel reyndust við íslenskar aðstæður. Árangur af margra ára dugnaði og þrautseigju og einlægum áhuga þeirra bræðra verður seint metinn að verðleikum en grasasafnið í Lystigarði Akureyrar mun standa sem ódauðlegur minnisvarði handaverka þeirra.

Jón Rögnvaldsson lét af störfum við Lystigarðinn árið 1970. Hafði þá grasagarðurinn að geyma nær allar tegundir íslensku flórunnar auk hinna fjölmörgu erlendu jurta, svo að all nam fjöldi tegunda í Lystigarðinum um tvö þúsund. Sumarið 1972 tók heilsu Jóns að hraka og 10. ágúst það sama ár lést hann 77 ára að aldri.

Auk starfa sinna við Lystigarðinn lét Jón mikið að sér kveða í garðyrkjumálum bæjarins. Hann rak garðyrkjustöðina Flóru um skeið og hafði forgöngu um stofnum Skógræktarfélags Eyfirðinga þar sem hann gegndi formennsku fyrstu árin. Hann vann einnig við leiðbeiningar í garðyrkju, skipulagningu skrúðagarða og önnur ræktunarstörf. Hann skrifaði einnig mikið og árið 1937 kom út bók hans “Skrúðgarðar” sem síðan var endurútgefin 1953. Auk þess skrifaði hann margar greinar í blöð og tímarit um garðyrkju, skógrækt, skipulag og landbúnað. Eitt af helstu baráttumálum Jóns var að komið yrði upp garðyrkjuskóla hér norðanlands og hafði honum orðið nokkuð ágengt í því efni er dauðinn knúði á dyrnar. Ekki er að efa að honum hefði tekist þetta ætlunarverk sitt eins og svo mörg önnur ef honum hefði enst aldur til.

Í virðingarskyni við söfnunarstörf Jóns veitti forseti Íslands honum fálkaorðuna 17. júní 1963.

more